Ör fjölgun inflúensutilfella

Inflúensa A (H1N1) breiðist nú hratt út á Íslandi. Á …
Inflúensa A (H1N1) breiðist nú hratt út á Íslandi. Á sjötta hundrað einstaklingar hafa leitað til heilbrigðisþjónustunnar með staðfesta inflúensu A (H1N1) eða inflúensulík einkenni frá 29. júní. Reuters

Frá 29. júní hafa samtals borist 577 tilkynningar um einstaklinga sem leita til heilbrigðisþjónustunnar með staðfesta inflúensu A (H1N1) eða inflúensulík einkenni. Þar af eru 262 karlar og 315 konur. Tilfellum hefur fjölgað mjög síðustu þrjár vikur og gerir embætti landlæknis ráð fyrir að tilfellum fjölgi mjög á næstu vikum.

Skráning á inflúensulíkum einkennum og staðfestri inflúensu A (H1N1) fer fram í Sögu sjúkraskrá á öllum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum landsins. Í vor og sumar hefur verið unnið að rafrænum flutningi gagna á inflúensugreiningum sem eru skráðar í Sögu sjúkraskrá í samvinnu við fyrirtækið EMR heilbrigðislausnir sem sér um Sögu sjúkraskrá. Þessi skráning er nú virk og upplýsingar um inflúensutilfelli berast því rafrænt til sóttvarnalæknis frá öllum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum á landinu einu sinni á sólarhring. Þessi skráning gefur möguleika á að fylgjast með aldri og kyni þeirra sem veikjast og fylgjast tímanlega með útbreiðslu inflúensunnar um landið.

Samkvæmt frétt á vef landlæknis frá í gær, höfðu á tímabilinu 18. maí til 19. ágúst, samtals greinst 142 tilfelli með staðfesta inflúensu A(H1N1) sýkingu á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala. Þar af eru 79 karlar og 63 konur.

Landlæknir segir að ekki sé vitað um alvarleg veikindi af völdum inflúensu A(H1N1)v veirunnar hérlendis. Dregið var úr sýnatöku í síðustu viku sem getur skýrt fækkun tilfella sem eru staðfest með sýnatöku.

Flestir sem greindir hafa verið, eru á aldrinum 15 til 29 ára. Flest tilfellin hafa verið staðfest á höfuðborgarsvæðinu eða 97. Þá eru 16 tilfelli staðfest á Suðurnesjum, 10 tilfelli hafa verið staðfest í einstaklingum búsettum erlendis, 9 tilfelli á Vesturlandi, 6 á Norðurlandi og 3 á Austurlandi. Aðeins eitt tilfelli hefur verið staðfest á Suðurlandi en ekkert á Vestfjörðum eða í Vestmannaeyjum, samkvæmt upplýsingum á vef landlæknis.

Vefur landlæknisembættisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert