Ræddi við Fogh um hryðjuverkalög

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tekur á móti Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra …
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tekur á móti Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, við Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist hafa tekið það sérstaklega upp við Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, á fundi í dag, að Bretar hafi beitt sér afar sérkennilega gegn bandalagsþjóð í NATO að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir í Bretlandi.

Fram kom hjá Jóhönnu, að Fogh Rasmussen hefði rætt við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, um Icesave-málið. 

Jóhanna sagði á Alþingi nú síðdegis, að ekki væri hægt að afsaka það að Bretar skyldu hafa beitt hryðjuverkalögunum með þeim hætti sem þeir gerðu. Sagði hún að íslensk stjórnvöld hefðu ítrekað mótmæt þessu og sjálf sagðist hún hafa tekið málið upp við Gordon Brown í kjölfar þess að bresk þingnefnd gagnrýndi þarlend stjórnvöld.

„Ég hef ekki fengið skýringu Gordons Browns á því sem ég tel fullnægjandi," sagði Jóhanna.

Hún sagði alveg ljóst, að það væri hlutverk íslenskra stjórnvalda að taka Icesave-málið upp að nýju við Breta og Hollendinga þegar niðurstaða væri fengin á  Alþingi. „Auðvitað er það hlutverk okkar að framfylgja því sem Alþingi samþykkir í þessu máli vegna þess að þessir samningar voru samþykktir með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Stjórnvöld hafa þá skyldu að ganga til þeirra viðræðna af fullri festu og ná því fram sem hér hefur verið samþykkt á Alþingi," sagði Jóhanna. 

Hún sagði, að fyrirvararnir við frumvarpið um ríkisábyrgðina væru þess eðlis, að stjórnvöld ættu að geta útskýrt þá fyrir viðsemjendum sínum og alþjóðasamfélaginu „þannig að á þá verði fallist“. Sagðist hún sannfærð um að viðsemjendurnir muni ekki setja samningana í uppnám, þegar þeir gerðu sér ljóst að um varnagla væri að ræða.

Rætt við fjölmarga forsætisráðherra

Jóhanna sagðist hafa rætt við ýmsa forsætisráðherra, þar á meðal alla forsætisráðherra Norðurlandanna, um stöðu málsins. Hún sagði að þær óformlegu viðræður, sem átt hefðu sér stað milli íslenskra, breskra og hollenskra embættismanna að undanförnu, gæfu ekki tilefni til að halda að það þurfi að hafa miklar áhyggjur af því að taka þurfi samningana upp að nýju. 

Hún sagði, að Íslendinga biði mikið verkefni að kynna málstað Íslands á alþjóðavettvangi.  Hún sagði, að þegar hefðu verið lögð drög að því hvernig standa eigi að slíkri kynningu en afar margt í efnahagslegri úrlausn héngi á niðurstöðunni í Icesave-málinu. Nefndi hún lánasamningana við Norðurlöndin, og endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagsáætluninni.

„Ég býst við að það hafi einhvað að segja um lánshæfismat þjóðarinnar hver verður niðurstaðan í þessu máli. Jafnvel hefur það einnig áhrif á stýrivextina. Það hefur áhrif á það hvort erlendir aðilar hafi áhuga á að koma sem eignaraðilar að innlendum bönkum," sagði Jóhanna.

Rannsóknarefni hvers vegna Icesave var leyft í Hollandi

Jóhanna sagði í ræðu sinni að það væri sérstakt rannsóknarefni hversvegna Landsbankanum var leyft að hefja innlánssöfnun á eigin ábyrgð í Hollandi í maí 2008 á sama tíma og reynt var með öllum ráðum að fá bankann til þess að koma innstæðum í Bretlandi í breskt dótturfélag.

Hún sagði að útrásarvíkingarnir hefðu farið fram af offorsi og of miklum glannaskap.

„Þeir sem voru í forsvari fyrir útrásinni blésu á skömmum tíma út efnahag bankanna þannig að efnahagur þeirra samsvaraði tíu til tólffaldri landsframleiðslu og þeir horfðust greinilega ekki í augu við þá staðreynd að ódýrt lánsfé var ekki lengur aðgengilegt á alþjóðlegum lánamörkuðum frá og með árinu 2006 og gengu fram á árinu 2007 og 2008 með æ meira óhófi og ágirnd. Og í stað þess að minnka umsvif sín og sníða fjárfestingabönkum sínum stakk eftir vexti á erlendum vettvangi, hófu þeir að safna innlánum með loforðum um háa vexti á netreikninga í Evrópu. Þar með hjuggu þeir nærri þjóðarhagsmunum Íslands og annarra landa um leið og Landsbankinn skirrtist við að koma innlánssöfnum sínum í Bretlandi og Hollandi í erlenda tryggingavernd. Í raun gerði bankinn þannig út á íslenska ríkisábyrgð með íslensku þjóðskrána að veði,“ sagði forsætisráðherra.

Hún sagði einnig að seðlabankar og fjármálaeftirlit í Bretlandi og Hollandi gætu ekki skotið sér undan allri ábyrgð á því sem varð íslenska bankakerfinu að falli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert