Segir framsóknarmenn einhuga um að vísa eigi Icesave-málinu frá

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, sagði við umræður á Alþingi í morgun, að einhugur væri um það í þingflokki framsóknarmanna og það væri skýr afstaða Framsóknarflokksins í heild að leggja eigi Icesave-samningana til hliðar og semja upp á nýtt við Breta og Hollendinga.

Sagði Höskuldur að lögfræðingurinn Lee C. Buchheit, sem er sérfræðingur á sviði þjóðarskuldbindinga, hafi tekið undir þetta sjónarmið á fundi með fjárlaganefnd. „Taldi hann fullvíst að vel yrði tekið í þá beiðni, þar sem hagsmunir Íslendinga, Hollendinga og Breta, væru að mörgu leyti sambærilegir og því hefðu þessar þjóðir ríka hagsmuni af því að Íslendingum vegnaði vel,“ sagði Höskuldur.

Höskuldur mælti fyrir áliti fulltrúa Framsóknarflokksins, sem mynda 2. minnihluta í fjárlaganefnd, við Icesave-frumvarpið. Sagði hann sérstaklega gagnrýni vert, að upplýsingar um eignir þrotabús Landsbanka Íslands hf. liggi ekki enn fyrir hjá nefndinni. Hafi komið fram upplýsingar um að bæði Hollendingar og Bretar hefðu hins vegar aðgang að þessum upplýsingum, sem og íslenski innistæðutryggingasjóðurinn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert