Friðjón ÖRN Friðjónsson, skiptastjóri þrotabús Íslenskrar afþreyingar, segist ætla að kanna það sjálfstætt hvort kröfuhöfum Íslenskrar afþreyingar hafi verið mismunað þegar fjölmiðlahluti 365 miðla, sem á m.a. Fréttablaðið, Bylgjuna og Stöð 2, var seldur frá félaginu til Rauðsólar ehf. í nóvember á síðasta ári.
Að sögn Friðjóns hafa ekki borist formlegar kvartanir af hálfu kröfuhafa þrotabúsins, en málið sé í athugun. „Ég mun athuga þetta sérstaklega og sjálfstætt,“ segir hann.
Rauðsól, sem heitir í dag Sýn ehf. og er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti 365 miðla í nóvember á síðasta ári og var kaupverðið 5,9 milljarðar króna. Samsetning kaupverðs var þannig að Rauðsól reiddi fram 1,5 milljarða króna í lausu fé og tók yfir skuldir upp á 4,4 milljarða.
Eftir söluna á 365 miðlum voru félögin Sena og EFG ehf. eftir í Íslenskri afþreyingu. Öll hlutabréf í Senu voru seld til Garðarshólma í mars sl., en Sena rekur verslanir Skífunnar og kvikmyndahúsin Smárabíó, Háskólabíó, Regnbogann og Borgarbíó, Akureyri. Fyrir gjaldþrot Íslenskrar afþreyingar í júní sl. var einnig búið að selja EFG ehf., sem á Saga Film og önnur norræn félög í auglýsingaframleiðslu.