„Tær snilld“

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar og Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar og Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þór Saari, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í fjárlaganefnd, sagði á Alþingi í dag að efnahagsleg viðmið og þak á greiðslum vegna Icesave sem samkomulag náðist um, væru upprunalega komin frá sjálfstæðisþingmönnunum Pétri H. Blöndal og Tryggva Þór Herbertssyni. „Eru [þau] að mínu mati, eins og menn sögðu árið 2007, tær snilld,“ sagði Þór. Hann skrifar undir breytingartillögur meirihlutans með fyrirvara.

Þór sagði að sá þverpólitíski meirihluti sem náðist um fyrirvara við ríkisábyrgðina væri hugsanlega einsdæmi í sögu þingsins. Myndast hafi mjög breið samstaða um breytingartillögurnar. Framsóknarmenn hafi þó viljað hafa sterkari fyrirvara í málinu, „en það er ekki útséð með að þeir verði með á því áður en yfir lýkur. Sérstaklega ef tekið er tillit til  einhverra af þeim breytingartillögum sem þeir hafa lagt hér fram,“ sagði Þór.

Hann gagnrýndi harðlega Seðlabankann fyrir að leggja fram óraunhæfar spár og tölur um hagvöxt og útflutningstekjur fyrir fjárlaganefnd. Fulltrúar bankans hafi hvað eftir annað verið sendir til baka og beðnir um að koma með nýjar og betri tölur. Enn hafi ekki fengist nákvæmar upplýsingar um skuldastöðu þjóðarbúsins og bankinn gerði m.a. ráð fyrir að 163 milljarða kr. afgangi af viðskiptum við útlönd á ári næstu tíu árin. Til samanburðar nefndi Þór að þegar afgangur var á viðskiptum við útlönd á árunum 1990 til 2008 hafi hann samanlagt verið 76 milljarðar á þessu 19 ára tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert