Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áður en atkvæðagreiðslur um breytingartillögur við Icesave-frumvarpið fóru fram á Alþingi í kvöld, að þótt flokkurinn styddi breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við frumvarpið nægðu þær ekki til að hægt væri að styðja málið í heild.
Sagði Bjarni, að styrkja þurfi fyrirvara við ríkisábyrgð vegna Icesave-samningana. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og formaður fjárlaganefndar, sagðist leggja til að málið fari nú á ný til fjárlaganefndar og hún muni taka sér þann tíma sem þarf til að fara yfir athugasemdir og ábendingar sem komið hefðu fram í 2. umræðu um málið. Boðaður hefur verið fundur í fjárlaganefnd í fyrramálið klukkan 10.
Fyrsta atkvæðagreiðslan var um frávísunartillögu Framsóknarflokksins. Hún var felld með 48 atkvæðum gegn 10 en 2 greiddu ekki atkvæði. Þeir sem greiddu tillögunni atkvæði voru 9 þingmenn Framsóknarflokksins og Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður. Þær Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir, þingmenn Borgarahreyfingarinnar, sátu hjá en Þór Saari, þingmaður flokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni ásamt þingmönnum Samfylkingar, VG og Sjálfstæðisflokksins.
Í kjölfarið tilkynnti Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins, að hann drægi breytingartillögur, sem hann lagði fram við frumvarpið, til baka til 3. umræðu.
Breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar voru síðan flestar samþykktar með 51 atkvæði þingmanna Samfylkingar, VG, Sjálfstæðisflokks, Borgarahreyfingarinnar og Þráins Bertelssonar gegn 9 atkvæðum þingmanna Framsóknarflokks.