Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við umræður á Alþingi nú eftir hádegi að ef í ljós komi að fyrirvararnir við Icesave-frumvarpið halda ekki muni hún ekki greiða þeim atkvæði sitt. Ekki sé hægt að afgreiða frumvarpið eins og það liggur nú fyrir.
Fjárlaganefnd þurfi að fara betur yfir Icesave-frumvarpið og hnykkja á ákveðnum atriðum á milli 2. og 3. umræðu.
Þorgerður Katrín lagði áherslu á að tryggja þurfi að fyrirvararnir haldi. Hún sagði að fjárlaganefnd þyrfti að fara yfir þær ábendingar sem komið hefðu fram við 2. umræðu um frumvarpið og úr þjóðfélaginu, m.a. frá InDefence-hópnum. Fjárlaganefnd verði að eyða óvissu og fara gaumgæfilega yfir ábendingar sem fram hafa komið.
Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna, kom í ræðustól í andsvari við ræðu Þorgerðar og sagði að fulltrúar stjórnarflokkanna stæðu við það samkomulag sem náðist milli flokkanna í fjárlaganefnd um fyrirvarana við frumvarpið. Hann sagðist vona að ekki væri að verða breyting á því af hálfu annarra flokka. Þorgerður Katrín svaraði Árna og sagði að sjálfstæðismenn stæðu að sjálfsögðu við það samkomulag sem gert hefði verið. Hún gagnrýndi ummæli Björns Vals Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna og varaformanns fjárlagalefndar, á Alþingi í morgun, að Icesave-samningarnir hefðu ekkert breyst þrátt fyrir þá fyrirvara sem samkomulag náðist um. Árni Þór tók fram er hann kom í ræðustól að hann væri ekki sömu skoðunar og Björn Valur.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kvað sér einnig hljóðs í andsvörum við ræðu Þorgerðar Katrínar og sagði mjög mikilvægt að ekki yrði skilið við þetta mál í óvissu. Fyrirvararnir skiptu miklu máli og væru engir sýndarfyrirvarar.
Spurði Þorgerður Guðbjart hvort hann gæti ekki tekið undir að ábendingar InDefence um fyrirvara við ríkisábyrgðina yrðu skoðaðar sérstaklega. „Við munum að sjálfsögðu skoða þessar athugasemdir,“ svaraði Guðbjartur.