Erilsamt á höfuðborgarsvæðinu í nótt

Nokkuð erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Ferðaklósett við Esjurætur eyðilögðust í eldi í gærkvöldi. Par var handtekið er það reyndi að versla með stolið greiðslukort. Þrjú innbrot tilkynnt.

Tilkynnt var um eld í ferðaklósetti við Esjurætur í gærkvöldi og eru þau nú talin ónýt. Þá var tilkynnt um að hjólhýsi hefði fokið út af Vesturlandsvegi í Kollafirði, á hæðinni við Kjalarnesið. Er hjólhýsið talið ónýtt. Var mjög vindasamt er þetta gerðist og fóru hviður upp í 30 metra á sekúndu.

Rétt fyrir eitt var svo hringt í lögreglu úr versluninni Lyfju. Þar var par sem vildi versla með stolið greiðslukort. Hafði parið stolið því af manni sem hafði skutlað því. Gista þau nú fangageymslur.

Stuttu síðar var tilkynnt um að bifreið hefði ekið utan í vegrið á Vesturlandsvegi, við Höfðabakkabrú. Ekkert var um slys á fólki en eignatjón er nokkuð þar sem vegriðið er ónýtt á hundrað metrakafla og bifreiðin er talsvert skemmd. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri.

Í nótt var tilkynnt um innbrot í Fiskó við Dalveg. Þar hafði útihurð verið spörkuð upp en ekki var þó farið inn. 

Klukkan hálf fjögur var tilkynnt var um að tveir menn hefðu sést á hlaupum frá kaffihúsinu Babalú við Skólavörðustíg. Reyndust þeir hafa komist inn og náð einhverju af peningum. Mennirnir komust undan.

Sömuleiðis var brotist inn í söluturn við Jaðarsel. Höfðu þjófarnir á brott með sér sjóðsvél, símakort, skiptimynt og eitthvað smávægilegt.

Óvenjumargir gistu fangageymslur lögreglunnar í nótt, bæði þeir sem höfðu verið teknir fyrir ýmis brot sem og útigangsmenn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert