Fjórir dæmdir fyrir skjalafals

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Fjórir útlendir karlmenn voru dæmdir, í þrjátíu daga fangelsi hver, í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í vikunni fyrir að framvísa röngum vegabréfum. Komu þeir til landsins 13.-17. ágúst og voru handteknir við komuna til landsins. Tveir þeirra eru íranskir, einn sómalískur og einn frá Sierra Leone.

Allir eru þeir ungir að árum, sá elsti er fæddur árið 1971 en tveir þeir yngstu eru fæddir 1985.  

Fimmtudaginn 13. ágúst var 24 ára karlmaður frá Sómalíu handtekinn eftir komu til  Keflavíkurflugvallar með flugi frá Osló. Maðurinn var á leið til Torontó í Kanada og framvísaði norsku vegabréfi.

Föstudaginn 14. ágúst var 25 ára karlmaður frá Sierra Leone handtekinn eftir komu til  Keflavíkurflugvallar með flugi frá Frankfurt. Sá var einnig á leið til Torontó í Kanada og framvísaði fölsuðu kanadísku vegabréfi.

Laugardaginn 15. ágúst var 28 ára karlmaður frá Íran handtekinn eftir komu til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Helsinki. Sá framvísaði fölsuðu dönsku vegabréfi.

Mánudaginn 17. ágúst var 26 ára karlmaður frá Írak handtekinn eftir komu til Keflavíkurflugvallar með flugi frá Osló. Sá framvísaði fölsuðu tyrknesku vegabréfi.

Hver um sig var dæmdur í 30 daga fangelsi. Að auki var hverjum hinna dæmdu gert að greiða verjanda tæplega 84 þúsund krónur í málskostnað.

Frá áramótum hefur á þriðja tug manna verið handtekinn við komu til landsins í Leifsstöð með fölsuð eða stolin skilríki. Oftar en ekki er um að ræða fólk sem kemur frá Evrópu og hyggst halda áfram för sinni til Kanada og þaðan til Bandaríkjanna. Að lokinni afplánun er viðkomandi sendur til síns heima eða upprunalands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert