Lýsti andstöðu í bréfi

Atli Gíslason.
Atli Gíslason.

Fyrirvararnir við ríkisábyrgðina sem samkomulag náðist um skiptu sköpum og breyttu afstöðu Atla Gíslasonar þingmanns Vinstri grænna til Icesave-málsins. Hann segist nú geta stutt það. 21. júlí greindi Atli hins vegar þingflokki Vg frá því í bréfi að hann gæti ekki lagt blessun sína yfir Icesave-frumvarpið. Atli sagði frá þessu við umræður á Alþingi í morgun.

Atli rakti í ræðu sinni aðdraganda málsins og andstöðu hans við Icesave-samningana frá bankahruninu sl. haust. Hann sagðist svo hafa kynnt félögum sínum í þingflokki VG bréflega afstöðu sína til frumvarpsins um ríkisábyrgð og Icesave-samninganna 21. júlí en ákveðið að opinbera það ekki þar sem vonir stóðu til að breið samstaða gæti náðst um breytingar.

Fram kom í ræðu Atla að núna lægi fyrir breið samstaða um fyrirvara og því liti hann svo á að það væri illskásti kosturinn að samþykkja samninginn. Það væri þó mjög beiskur kaleikur að samþykkja Icesave-samninginn, fullkominn neyðarkostur.

Atli bætti því við að skoða þyrfti í fjárlaganefnd hvort ekki væri mögulegt að styrkja fyrirvarana við ríkisábyrgðina ennfrekar á milli 2. og 3. umræðu um frumvarpið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert