Norska ríkisútvarpið (NRK) mun fjalla um Ísland í þættinum Sånn er livet (Svona er lífið) í næstu viku. Á hverjum degi, frá mánudegi til föstudags, verður fjallað um land og þjóð í þættinum. Birt verða viðtöl við Íslendinga sem norska fréttakonan Kirsti Kraft tók fyrir NRK.
Þáttastjórnendur segja í samtali við mbl.is að Kraft hafi heimsótt Ísland í þeim tilgangi að sjá og heyra hvernig Íslendingar upplifa efnahagshrunið og þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi.
Kraft, sem dvaldi hér á landi í eina viku, ræddi jafnt við íslenska ráðamenn og venjulega Íslendinga.
Áhugaleysi norskra fjölmiðla á Íslandi gagnrýnt
Jan Erlend Leine, sem stýrir þættinum, segir að áhugaleysi norsku fjölmiðlanna á bankakreppunni hafi verið gagnrýnt nokkuð í Noregi.
Hann segir að það sé mikilvægt að Norðmenn átti sig betur á því sem er að gerast almennt í íslensku samfélagi, auk þess að skilja betur bakgrunn málsins. Bæði vegna þess hve margir Íslendingar hafi flutt til Noregs að undanförnu vegna kreppunnar, og síðast en ekki síst vegna sögulegra tengsla þjóðanna.
Þátturinn er klukkutíma langur og er útvarpað á mánudögum til föstudags á milli kl. 10 og 11, að norskum tíma. Þar eru samfélagsmál til umræðu og þau skoðuð ofan í kjölinn. Hvert innslag um Ísland í þættinum er um 24 mínútur á lengd.
Rætt við Íslendinga á krepputímum
Á mánudag verður leikið viðtal við Siv Friðleifsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og fyrrum ráðherra, þar sem hún er m.a spurð út í það hvort hún telji sig bera einhverja ábyrgð á hruninu.
Á þriðjudag er rætt við blaðakonu á Morgunblaðinu og atvinnulausan vörubílstjóra sem á fimm börn, sem gæti átt von á því að missa húsið sitt.
Á miðvikudag er rætt við íslenskan hönnuð sem ræðir stöðu íslenskra listamanna á krepputímum. Einnig er rætt við kennara á eftirlaunum sem talar um þá erfiðleika sem fylgi því að vera hættur að vinna, og hvernig það er að þurfa að reiða sig á aðstoð annarra.
Á fimmtudag verður rætt við konu sem missti vinnunna sem arkitekt skömmu eftir að hún keypti sér nýja íbúð. Þá verður rætt við Norðmann sem býr á Íslandi og starfar hjá íslenska tölvufyrirtækinu CCP.
Á föstudag verður svo fjallað um velferðarmál barna hér á landi, þá sérstaklega í Kópavogi. Viðmælandi Kraft segist m.a. óttast að margar íslenskar fjölskyldur muni lenda í miklum erfiðleikum í haust.