Fulltrúar Félags fasteignasala, Húseigendafélagsins, Búseta á Norðurlandi, Hagsmunasamtaka heimilanna og talsmaður neytenda áttu fund í vikunni vegna alvarlegrar efnahagsstöðu heimilanna í landinu, að því er segir í tilkynningu.
„Fundarmenn voru sammála um að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til séu hvergi nærri fullnægjandi og ítreka tillögur sínar um almennar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Slíkar aðgerðir eru ekki eingöngu nauðsynlegar út frá efnahagslegum sjónarmiðum heldur verða stjórnvöld að svara kalli almennings um sanngjarna leiðréttingu lána. Með því móti má skapa samfélagslega sátt um þessi mál og auka líkur á farsælli endurreisn efnahagskerfisins og samfélagsins í heild."