Kennari í Réttarholtsskóla er í einskonar uppreisn gegn nýrri stimpilklukku sem hann telur til marks um verksmiðjuvæðingu skólastarfsins. Hann segir að fjögurra manna sendinefnd frá Menntasviði borgarinnar hafi tekið sér klukkutíma í að kenna starfsfólki skólans á stimpilklukku meðan haldnir voru starfsdagar í skólanum til að kenna þrjátíu manns hvernig þeir eigi að stimpla sig inn út. Honum hafi þótt það fullmikið af einum vinnudegi,
Hann gagnrýnir að á sama tíma og það sé verið að skera niður skólastarf vegna aðhaldsaðgerða eyði yfirvöld menntamála dýrmætum tíma í að kenna starfsfólkinu á klukkuna líkt og þeir séu heilalausir. Þau hafi gefið þá skýringu að það sé verið að hjálpa kennurum að halda utan um tíma sinn. Hann telji þetta hinsvegar til marks um vantraust.
Jóhann kennir heimspeki og heldur úti heimasíðu. Skrif hans um stimpilklukkuna hafa vakið athygli. Hann sendi yfirvöldum menntamála kaldar kveðjur og gekk svo langt að segja fokk jú við menntaráð á heimasíðu sinni. Hann kallar menntaráð pólitískan klúbb og segir það hafa takmarkað vit á skólastarfi. Það sé að hugsa um sinn pólitíska frama en ekki endilega það að byggja upp gott skólakerfi. Hann segir orðatiltækið ,,fokk jú", koma fyrir í búsaáhaldabyltingunni og víðar en hann sé bara að beina því til stjórnmálamanna að hugsa sinn gang. Það sé hægt að gera fleira við skólastarf en að verksmiðjuvæða það.