Þegar Guðlaugur Þorleifsson fór með sinni fimm manna fjölskyldu út á Seltjarnarnes síðastliðinn laugardag átti hann ekki von á því að þau yrðu sex þegar þau héldu aftur heim í Kópavoginn.
Farþeginn var andarungi sem hafði elt þau á röndum á Nesinu.
Nú býr unginn í bílskúr fjölskyldunnar og fer með í gönguferð þegar fjölskyldan fer út að viðra hundinn.
„Þegar við vorum komin að Seltjörn sáum við bíl frá Húsdýragarðinum og unglinga sem slepptu tveimur ungum lausum. Unglingarnir stukku síðan upp í bílinn og keyrðu í burtu. Við sáum að ungarnir hlupu strax upp á veg og lögðust þar niður,“ segir Guðlaugur.
Að sögn Guðlaugs kom önnur barnafjölskylda þarna að. „Hún fór að dekra við hinn ungann og svo tókum við þá ákvörðun í sameiningu að taka hvor sinn ungann og koma þeim á flot daginn eftir úti á Elliðavatni eða úti á tjörn. Þeim tókst það strax daginn eftir og hann var bara sáttur.“
Andarunginn sem býr í bílskúrnum hjá Guðlaugi og fjölskyldu hans í Kópavoginum var ekki jafnsáttur þegar reynt var að koma honum á stað þar sem endur eiga eiginlega að vera.