Veitti ekki heimild í ríkisstjórn

Þingmenn hlýða á Icesave-umræður.
Þingmenn hlýða á Icesave-umræður. mbl.is/Eggert

„Málið var tekið fyrir í ríkisstjórn og afgreitt þar en þar gerði ég grein fyrir því sjónarmiði mínu og afstöðu að ég veitti ekki heimild mína til þess að gengið yrði frá samningnum,“ sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, á Alþingi síðdegis í svari við spurningu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur Sjálfstæðisflokki, um hvort Icesave-samningarnir hafi verið bornir upp í ríkisstjórninni á sínum tíma.

Fram kom í ræðu Ögmundar um Icesave-frumvarpið í dag að þeir fyrirvarar sem nú lægju fyrir hefðu gjörbreytt stöðu málsins til hins betra. Ögmundur tók þó fram að fjárlaganefnd hlyti að fara mjög vel yfir lögfræðileg álitamál sem uppi eru um fyrirvarana og kalla til sérfræðinga til ráðgjafar á milli 2. og 3. umræðu.

„Það er hægt að gera það bæði innanlands og utan á tímum tölvusamskipta. Mér finnst eðlilegt að það verði farið rækilega í saumana á þessum málum en ég hef lýst þeirri afstöðu minni sem leikmanns, [...] sem stjórnmálamanns og sem fulltrúa á Alþingi Íslendinga, að ég tel að þegar um er að tefla fjármuni sem fara úr íslenskum ríkiskassa, þá er hið endanlega orð hér, hjá löggjafarvaldinu, hjá fjárveitingarvaldinu á Íslandi. Ef það er svo, að erlendar þjóðir, hvort sem það eru dómstólar eða ríkisstjórnir, véfengja þennan rétt okkar, þá eru þær þar með að véfengja fullveldi okkar,“ sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert