InDefence hópurinn telur afar mikilvægt að að fyrirvarar sem Alþingi setur við ríkisábyrgðina hafi ótvírætt gildi gagnvart þeim. Um það ríki óvissa. InDefence hópurinn hefur borið fyrirvarana undir Dr. Michael Waibel, sérfræðing í alþjóðarétti við Cambridge háskóla. Bráðabirgðaálit hans er að óvíst sé hvort fyrirliggjandi fyrirvarar hafi gildi samkvæmt breskum lögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Nú eru til umfjöllunar á Alþingi fyrirvarar við ríkisábyrgð á Icesave lánasamningunum.
Þar sem bresk lög gilda um Icesave samningana er afar mikilvægt að fyrirvarar sem Alþingi setur við ríkisábyrgðina hafi ótvírætt gildi gagnvart þeim. Um það ríkir óvissa.
InDefence hópurinn hefur borið fyrirvarana undir Dr. Michael Waibel, sérfræðing í alþjóðarétti við Cambridge háskóla. Bráðabirgðaálit hans er að óvíst sé hvort fyrirliggjandi fyrirvarar hafi gildi samkvæmt breskum lögum. Slík afgreiðsla málsins beri því í sér mikla áhættu fyrir Íslendinga. Sé það raunin að fyrirvarar Alþingis hafi ekki gildi samkvæmt breskum lögum eru Alþingismenn í raun að samþykkja Icesave samningana óbreytta, samninga sem meirihluti þjóðarinnar og þingmanna telur óviðunandi.
Í ljósi þessarar óvissu er nauðsynlegt að Alþingi afli formlegs álits óháðra sérfræðinga í breskum lögum til að fá úr því skorið hvort fyrirvararnir við ríkisábyrgð hafi gildi fyrir breskum dómstólum. Slíkt sérfræðiálit þarf að berast Alþingi áður en frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum er afgreitt.
Að hundsa þessa grundvallarspurningu gætu reynst afdrifarík afglöp, því um er að ræða óvissu sem getur kostað Íslensku þjóðina hundruð milljarða. InDefence hópurinn skorar á Alþingismenn þjóðarinnar að eyða óvissu um lagalegt gildi fyrirvaranna með því að kalla tafarlaust eftir formlegu áliti óháðra sérfræðinga í breskum lögum," að því er segir í tilkynningu.