Funda um Icesave um helgina

Fjárlaganefnd á fundi.
Fjárlaganefnd á fundi. mbl.is/Heiðar

Fundi fjárlaganefndar Alþingis um Icesave-málið lauk fyrir stundu og mun nefndin koma saman til fundar á ný á mánudagsmorgun. Í millitíðinni verður skoðað hvaða leiðir koma helst til greina til að styrkja málið fyrir þriðju umræðu, að sögn Guðbjarts Hannessonar, formanns nefndarinnar.

Fundur fjárlaganefndarinnar í morgun hófst kl. 10 og á hann komu fulltrúar frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. „Það komu einnig fulltrúar frá Indefence-hópnum sem voru með vangaveltur um hvort fyrirvararnir héldu fyrir breskum dómstólum. Í þriðja lagi fengum við fulltrúa frá forsætis- og fjármálaráðuneytinu varðandi hvað hefði verið í gangi í kynningum,“ segir Guðbjartur í samtali við mbl.is.

Um það hvernig styrkja eigi málið segir Guðbjartur: „Indefence kom með þá tillögu að gildistakan á ákvæðinu yrði ekki fyrr en komin væri staðfesting frá Bretum og Hollendingum um að þeir féllust á fyrirvarana. Það er auðvitað ein leið.“

Hann bendir einnig á að Tryggingarsjóður geti aldrei sett sig í þá stöðu að ríkisábyrgðin dugi ekki fyrir því láni sem verið sé að taka.

„Í þriðja lagi höfum við alltaf litið þannig á að við séum ekki í viðræðum við Breta og Hollendinga. Við erum Alþingi Íslendinga og erum að veita þessa ríkisábyrgð. Það er okkar að ákveða á hvaða forsendum sú ríkisábyrgð er sett og það er svo þeirra sem ætla að veita lánin hvort þeir sætta sig við það eða ekki,“ segir Guðbjartur.

Hann segir óljóst hvort nefndin þurfi lengri tíma en mánudaginn til þess að málin skýrist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka