Íbúarnir tyrfa Haðarstíg

Íbúar við Haðarstíg leggja þökur á malbikið í morgun.
Íbúar við Haðarstíg leggja þökur á malbikið í morgun. mbl/Kristinn

,,Hér eru allir velkomnir í dag en bara ekki á bíl!" sagði Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, teiknari og íbúi við Haðarstíg í Reykjavík í morgun. Íbúarnir eru nú í óða önn að tyrfa götuna en þeir hafa lengi reynt að fá samþykkt að Haðarstígur verði göngugata eða amk. vistvæn gata. Þá er hámarkshraði lækkaður og gangandi vegfarendur hafa forgang.

 Haðarstígur er í einum elsta hluta borgarinnar í Þingholtunum. Skilið verður eftir nægilegt malbik til að slökkvilið og sjúkrabílar geti athafnað sig á götunni þegar nauðsyn krefur, að sögn Höllu. Ef til vil muni þetta líkjast gömlum sveitavegi, gras á milli hjólfaranna! Hún segir að alger samstaða sé um málið meðal íbúanna.

,,Við höfum fengið í gegn að þetta er orðin vistgata en fáum engin skilti til að sýna þetta, allir segja já en það er ekkert gert. það sama er að segja um garðinn neðst í götunni, ekkert gert. Þess vegna tókum við okkur saman um að setja þar upp hlið af því að hér er fullt af börnum. Við viljum reyna að koma í veg fyrir að þau gætu hlaupið út á götu.

 Við viljum að hér sé aðeins nauðsynlegasta umferð vegna verslana en gatan verði fyrst og fremst vistvæn. Fólk þarf að að geta upplifað hana sem notalegan stíg sem gaman sé að ganga um."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert