Margmenni er í miðborginni á Menningarnótt Reykjavíkur. Umferðin hefur gengið greiðlega fyrir utan umferðarteppu í Þingholtunum, samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Sumir eru innlyksa vegna bíla sem hefur verið lagt þvers og kruss á Skólavörðuholtinu og í nærliggjandi götum. Lögreglan mælist til þess að fólk leggi ekki leið sína í Þingholtin á bílum og leggi heldur ekki bílum sínum í hjarta miðbæjarins. Fjölmargar götur eru lokaðar vegna hátíðarhaldanna.
Menningarnótt Reykjavíkur er nú haldin í fjórtánda sinn. Í boði eru nær 400 viðburðir um alla borg og lýkur dagskránni með tónleikum í Hljómskálagarðinum í kvöld.