Til greina kemur að hækka aðflutningsgjöld á stórum mengunarfrekum bílum og beita skattkerfinu til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Á ríkisstjórnarfundi í gær var samþykkt að hefja gerð áætlunar um sjálfbærar samgöngur sem hefur það inntak að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Áætlun þar um verður unnin af umhverfis- og samgönguráðuneytum sem og af fulltrúum fjármálaráðuneytis vegna skattamálanna.
„Við sjáum sóknarfæri,“ segir Svandís Svavarsdóttir. Sumt segir hún kalla á flóknar lagabreytingar en annað sé auðvelt í framkvæmd. Mestu skipti að nálgast mál heildstætt og mikilvægt sé að auka fræðslu til almennings um hin grænu gildi í samgöngumálum. Almenningssamgöngur eigi að vera jafnsettur valkostur og annað og því stendur m.a. til að skoða möguleika á þátttöku ríkisins í verkefninu Ókeypis í strætó – en ekki er ákveðið hvernig það gæti orðið.
Umhverfisráðherra segir mikilvægt að hjólreiðar verði fullgildur samgöngumáti hér á landi. Í því efni bendir hún á að í Danmörku noti þriðji hver Kaupmannahafnarbúi reiðhjól til að komast daglegra ferða sinna en tæplega tíundi hver Reykvíkingur. „Ísland er ekki svo miklu norðar en Danmörk að hjólreiðar ættu að geta orðið hluti af venjubundnum samgöngum hér á landi. Ísland má ekki verða amerísk bílaborg,“ segir Svandís og bætir við að rætt hafi verið við Strætó bs. um að setja upp reiðhjólageymslur á fjölförnum biðstöðvum.