Myndskeið, sem sagt er að hafi verið sýnt á hvatafundi yfirstjórnar Kaupþings á frönsku Rivíerunni árið 2005, hefur verið talsvert til umræðu meðal íslenskra bloggara síðustu daga og hefur nú vakið athygli utan landsteinanna. Danska blaðið Berlingske Tidende fjallar um myndbandið í dag og segir það vera til marks um þann hugsunarhátt, sem ríkt hafi innan bankans og að lokum leiddi til falls hans.
Í myndskeiðinu, sem er á ensku, er spurt: What is Kaupthinking? Því er síðan svarað með myndum af mörgum helstu afreksmönnum mannkynssögunnar og upplýsingum um að Kaupþing hafi tvöfaldast að stærð á hverju ári í átta ár og hagnaðurnn hafi aukist um 500% á aðeins þremur árum. „Kaupthinking“ sé hugsun handan venjulegrar hugsunar.
„Þetta gefur sjaldgæfa innsýn inn í þá menningu, sem ríkti í stærsta banka Íslands og það þarf ekki háskólapróf í táknfræði til að sjá vísbendingar um stórmennskubrjálæði - og þar með skýringar á hvers vegna allt fór á versta veg," segir danska blaðið.