Neituðu að senda Gæsluþyrluna

Þrengt hefur verið að fjárhag Landhelgisgæslunnar.
Þrengt hefur verið að fjárhag Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan

Björgunarsveitarmönnum á Húsavík var neitað um þyrlu frá Landhelgisgæslunni þegar sækja átti lík manns sem lést á Herðubreið í gær. Eftir að leitað hafði verið til dómsmálaráðherra varð niðurstaðan að þyrla frá Norðurflugi var leigð til að ná í lík mannsins.

Maðurinn var í hópi göngufólks þegar hann lést. Læknir var með í för sem úrskurðaði manninn látinn. Guðmundur Salómonsson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar á Húsavík, óskaði eftir að þyrla sækti lík mannsins, en Gæslan hafnaði því vegna fjárskorts. Guðmundur sagði í samtali við mbl.is að það hefði verið sitt mat að verið væri að setja björgunarmenn í hættu með því að sækja lík mannsins. Herðubreið væri erfitt fjall og hrunhætta úr því hefði aukist á seinni árum. Það hefði þurft upp undir 50 manns í leiðangur af þessu tagi.

Eftir að Guðmundur hafði fengið neitun frá Gæslunni hringdi hann í Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra og óskaði eftir að hún beitti sér í málinu. Niðurstaðan varð síðan sú að Gæslan leigði þyrlu frá Norðurflugi til að ná í lík mannsins upp á Herðubreið. Áður höfðu 45 björgunarmenn verið sendir af stað. Hluti hópsins gekk að staðnum og bjó um hinn látna á börum sem síðan voru hífðar upp í þyrluna.

Guðmundur sagðist hafa skilning á því að dýrt væri að fljúga þyrlum Landhelgisgæslunnar, en sparnaður mætti þó ekki verða til þess að menn væru settir í óþarfa hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka