Sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar hefur leitað af sér allan grun í Borgarholtsskóla en tilkynnt var um sprengju í skólanum laust eftir klukkan 12. Engin sprengja fannst í skólanum. Lögregla leitar manns sem grunaður er um að hafa hringt inn hótunina.
Hótunin barst klukkan 12:08. Hringt var í skólann og sagt að rýma yrði húsnæðið strax annars annars yrðu afleiðingarnar mjög alvarlegar. Lögreglu var tilkynnt um hótunina og húsið rýmt í skyndingu.
Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna var sent að Borgarholtsskóla. Sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð til og hefur hún gengið úr skugga um að engin sprengja er í húsinu.
Grunur beindist fljótt að ákveðnum manni og leitar lögregla hans nú.