„Við erum með það í skoðun nú að höfða mál gegn mönnum persónulega, sem komu að ákvörðun Giftar fjárfestingafélags og Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga,“ segir Sigurður G. Guðjónsson hrl.
Skjólstæðingar hans, sem áður voru tryggingatakar hjá Samvinnutryggingum, eru þeir sem sérstaklega vilja sækja rétt sinn vegna málefna félagsins.
Sigurður segir margt í starfsemi Giftar og Samvinnutrygginga orka tvímælis. „Það er ekki mikið upp úr þessu félagi [Gift innsk. blm.] að hafa núna þannig að þá er spurningin hverjir tóku þær ákvarðanir sem leiddu til þess að félagið lenti í erfiðleikum og eru hugsanlega persónulega ábyrgir fyrir hvernig fór.“
Um mitt ár 2007, þegar eignir Samvinnutrygginga, einkum í skráðum hlutafélögum, voru færðar yfir í Gift fjárfestingafélag, var eigið fé félagsins um 30 milljarðar. Þá var einnig skipuð stjórn í félaginu, án þess að hinir raunverulegu eigendur félagsins, fyrrverandi tryggingatakar hjá Samvinnutryggingum, hefðu nokkuð um það að segja.
Það eru ekki síst þær ákvarðanir sem Sigurður telur að menn þurfi að svara fyrir. „Menn skipuðu sjálfan sig í stjórn þessa félags, án þess að hafa til þess umboð frá eigendum félagsins. Síðan fara menn að sýsla með eignir og ég tel það ekki standast lög að standa svona að málum.“