Fjallalamb hf. á Kópaskeri hefur birt afurðaverð til bænda vegna sláturstíðar í haust. Fyrirtækið er fyrst til að birta verð fyrir komandi sláturtíð. Fyrirtækið hyggst greiða sama afurðarverð og árið 2008, nema að ekki verður um sérstakt útflutningsverð að ræða.
Svokölluð útflutningsskylda var afnumin í fyrra, en þá voru bændur skyldaðir til að flytja 28% af framleiðslunni á erlenda markaði. Yfirleitt hafa erlendir markaðir fyrir íslenskt lambakjöt skilað lægra verði til bænda en innlendi markaðurinn. Nú hefur hins vegar gengi krónunnar fallið mjög mikið og því er mun hagstæðara að flytja út lambakjöt en áður.
Fjallalamb greiddi á síðasta ári 350 kr/kg fyrir kjöt sem selt var úr landi, en nú verður miðað við innanlandsverð sem er á bilinu 235-477 kr/kg. Ekki verður um aðrar hækkanir að ræða samkvæm tilkynningu frá fyrirtækinu.