Fundi fjárlaganefndar Alþingis hefur verið frestað til klukkan 22:00 í kvöld. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er vilji til þess hjá fulltrúum stjórnarflokkanna í nefndinni að klára Icesave-málið fyrir 3. umræðu á Alþingi í kvöld. Þegar Alþingi hefur afgreitt málið að 3. umræðu lokinni er málinu lokið.
Frumvarpið, sem felur í sér ríkisábyrgð fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda vegna útgreiðslu af Icesave-reikningum Landsbankans, hefur verið til meðferðar hjá fjárlaganefnd vikum saman. Breytingartillögur á frumvarpinu hafa þegar verið samþykktar fyrir 3. umræðu.
Breytingartillögurnar fela m.a. í sér að tryggt sé með skýrum fyrirvörum að endurgreiðslur á lánum frá Bretum og Hollendingum, vegna Icesave, verði ekki of íþyngjandi fyrir íslenskan efnahag.