Rúmlega eittþúsund manns þurftu að yfirgefa Borgarholtsskóla í flýti í dag vegna sprengjuhótunar. Lögreglan hefur handtekið mann sem er grunaður um verknaðinn en engin sprengja fannst í skólanum.
Jón Benediktsson kennslustjóri í kvöldskóla segir að hótunin hafi strax verið tekin alvarlega enda séu atburðirnar í Finnlandi enn í fersku minni. Hann segist aldrei hafa orðið hræddur. Fólk sé ekki vant þessu hér en þetta sé kannski forsmekkur þess sem koma skal.
Fjöldi manns var viðstaddur skólasetningu í dag en laust upp úr hádeg, sama dag hringdi inn maður og sagði að rýma þurfti skólann annars gætu afleiðingarnar orðið skelfilegar.
Sigríður Pálsdóttir skrifstofumaður þurfti að hlaupa af stað á sokkaleistunum en ritarinn sem vinnur við hlið hennar tók upphaflega símann með hótuninni og vísaði honum áfram til aðstoðarskólastjórans.
Sprengjuleitarmenn leituðu af sér allan grun í skólanum en rýmingunni var ekki aflétt fyrr en tveimur klukkustundum eftir símtalið. Einn grunaður var handtekinn en sá er ekki nemandi í skólanum. Nemendur spáðu hinsvegar mikið í hver eða hverjir stæðu að baki hótuninni og hvaða ástæður gætu legið að baki. Þau grunuðu helst hvert annað. Úlfar Brynjar Viktorsson sem átti að hefja nám í skólanum í dag segir að sumir séu skróparar og nenni ekki að vera í skólanum. Vilji bara fá frí.