Nálgast endalokin í umræðum um Icesave

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefnfdar á Alþingi
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefnfdar á Alþingi mbl.is/Eggert

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir „endalokin“ á umræðum um Icesave á Alþingi vera að nálgast. Fjárlaganefnd muni hittast klukkan 10 í dag og halda áfram umfjöllun um frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda vegna lána frá Bretum og Hollendingum fyrir Icesave-reikningsinnistæðum Landsbankans. Guðbjartur segir nefndarmenn reyna eftir fremsta megni að ná sáttum um málið í heild.

Meirihluti Alþingis samþykkti þær breytingartillögur sem gerðar voru við frumvarpið í 2. umræðu, og var málið þannig sett aftur til fjárlaganefndar fyrir 3. umræðu. Meðal breytingartillagna var að endurgreiðslur á lánunum til Breta og Hollendinga skuli taka mið af þróun efnahagsmála hér á landi.

Þar er hagvöxtur í landinu helsta forsendan sem stýrir greiðslum á lánunum. Þ.e., að ef enginn hagvöxtur er í landinu þá falli greiðslur af lánunum niður.

Guðbjartur segir helst unnið að því að reyna að styrkja fyrirvarana. „Það kom upp í umræðunni að hugsanlega væri einhver vafi á því að fyrirvararnir myndu halda þegar á reyndi. Við viljum reyna að tryggja að það sé ekki vafi á því að fyrirvararnir haldi. Það skiptir miklu máli að ná sáttum um þetta mál og við munum reyna það eftir fremsta megni. Ég tel að það sé vel hægt að eyða öllum efasemdum um þessi mál, en þetta er í raun að miklu leyti textavinna, þar sem góð sátt hefur náðst um meginatriðin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert