Sementsverksmiðjan gengur út október

Sementsverksmiðjan á Akranesi gengur út október. Þá er fyrirhugað að stöðva framleiðslu vegna viðhalds en óvíst er um framhaldið.

Framleiðsla var stöðvuð í Sementsverksmiðjunni í janúar sl. vegna viðhalds. Framleiðsla hófst á ný í lok maí, eftir tæplega fjögurra mánaða hlé, sem nýtt var til viðhalds og lagfæringa á gjallbrennsluofni verksmiðunnar og öðrum framleiðslubúnaði hennar.

Alla jafna þarf að stöðva framleiðslu verksmiðjunnar á 10 mánaða fresti vegna viðhalds á gjallbrennsluofninum en vegna stöðunnar á byggingamarkaði verður framleiðsla stöðvuð í lok október. Ekki er ljóst hvenær framleiðsla hefst á ný en framleiðsluhlé mun vara í a.m.k. þrjá mánuði.

Sementsverksmiðjan berst nú fyrir lífi sínu vegna mikils samdráttar á byggingarmarkaði. Forsvarsmenn verksmiðjunnar hafa farið fram á að starfshlutfall starfsmanna verði lækkað tímabundið í 50% til að mæta samdrættinum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness, VLFA, og fulltrúi frá Vinnumálastofnun þinga með starfsmönnum á föstudaginn vegna þessarar óskar. um 50 manns vinna hjá Sementsverksmiðjunni go afleidd störf eru um 90.

Formaður VLFA segir furðu sæta að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins skuli kaupa innflutt  sementi frá Danmörku á sama tíma Sementsverksmiðjan á Akranesi berst fyrir lífi sínu.

„Það er Aalborg Portland Helguvík, sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana, sem flytur inn sement frá Danmörku. Það hafa verið flutt inn rúmlega 20 þúsund tonn á þessu ári að verðmæti um 240 milljóna króna í gjaldeyri. Í fyrra voru flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.

Helsti viðskiptamaður Aalborg, sem flytur inn danska sementið, er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka en bankinn er í eigu íslenska ríkisins.

„Það vekur einnig mikla furðu að verið er að nota innflutt danskt sement í Hellisheiðarvirkjun sem Orkuveitan er að byggja en rétt er að geta þess að Akranesbær á 5% í Orkuveitunni. Það er einnig verið að nota danska steypu við brúarsmíði yfir Hvítá á vegum Vegagerðar ríkisins,“ segir formaður VLFA.

Starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa boðið Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í heimsókn þar sem umhverfisráðherra verður sýnd verksmiðjan. Einnig vilja starfsmenn ræða þann vanda sem verksmiðjan stendur frami fyrir í kjölfar samdráttar á byggingarmarkaði. Umhverfisráðherra hefur þekkst boðið og mun heimsækja verksmiðjuna á fimmtudag.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka