Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er búið að losa sex mótmælendur samtakanna Saving Iceland sem hlekkjuðu sig við vinnutæki á vinnusvæðinu í Helguvík í morgun. Þeir hafa verið handteknir og færðir til skýrslutöku.
Að sögn lögreglu kom ekki til neinna átaka og er aðgerðum lokið á vettvangi. Fólkinu verður sleppt að lokinni skýrslutöku.
Tólf mótmælendur voru mættir á vinnusvæðið um kl. sjö í morgun. Skömmu síðar barst lögreglunni tilkynning um mótmælin.
Hún vísaði sex mótmælendum, sem höfðu ekki hlekkjað sig við vinnuvélar, af svæðinu. Sérsveitarmenn komu svo með tækjabúnað á vettvang til að losa hina, en þeir höfðu hlekkjað sig saman með hólkum.