Íslandsbanki og fleiri viðskiptabankar eru að skoða leiðir til að skuldbreyta íbúðalánum í erlendri mynt, afskrifa hluta þeirra og gefa viðskiptavinum færi á að breyta eftirstöðvunum í óverðtryggð lán. Fékk félagsmálanefnd Alþingis kynningu á þessu í síðustu viku.
Már Másson, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir að verið sé að skoða ýmsar leiðir. Viðræður hafi átt sér stað við ýmsa aðila en hins vegar sé mörgum spurningum ósvarað, m.a. um skattalega meðferð. „Við gerum ráð fyrir að kynna á næstu vikum þá leið sem bankinn hyggst fara,“ segir Már.