Uppfærðar tölur um fjölda svínaflensutilfella verða að líkindum birtar á vef landlæknis í dag. Tölur voru birtar sl. fimmtudag en þá höfðu frá lokum júní sl. borist 577 tilkynningar um einstaklinga sem leitað höfðu til heilbrigðisþjónustunnar með staðfesta inflúensu A eða inflúensulík einkenni. Er það æði hátt hlutfall landsmanna, miðað við helstu nágrannalönd. Undanfarnar þrjár vikur hefur tilfellum fjölgað hratt og segist Haraldur Briem sóttvarnalæknir gera ráð fyrir að fjöldi tilkynninga sé nú kominn vel yfir 600. Stöðugt berist fregnir af fleiri tilfellum.
„Þróunin er ör og erfitt að sjá hvort toppi hefur verið náð eða ekki. Það ætti að skýrast á næstu vikum,“ segir Haraldur sem hvetur alla til að forðast smit með öllum ráðum. Hann hvetur heldur ekki til samkomuhalds. Fjölmennir viðburðir eins og menningarnótt í Reykjavík hafi verið gott fóður fyrir svínaflensuna, enda um 100 þúsund manns á ferðinni í miðbænum. „Við mælum ennþá með því að þeir haldi sig heima sem eru með inflúensueinkenni,“ segir Haraldur en embættið hefur í samráði við skólayfirvöld komið á framfæri upplýsingum til skólastjórnenda og foreldra á síðustu vikum. Haraldur segir engar spurnir hafa borist af miklum afföllum í gær, þegar grunnskólar tóku almennt til starfa, en fylgst verði náið með mætingunni á næstunni. Það sé ákvörðun hvers skóla um sig til hvaða aðgerða verður gripið ef forföll verða mjög mikil. Ef heilu bekkirnir veikist geti þurft að loka skólum.