Fjárlaganefnd Alþingis mun koma saman til fundar kl. 14 í dag, til að ræða breytingatillögur við Icesave-frumvarpið, sem samþykktar voru af meirihluta Alþingis í nótt.
Nefndinni tókst ekki að ljúka umfjöllun um málið í nótt en fundarhöldin stóðu til kl. þrjú. Boðað hefur verið til þingflokksfunda fyrir fund nefndarinnar í dag.
„Þessir fjórir flokkar [Vinstri grænir, Samfylkingin, Borgarahreyfingin og Sjálfstæðisflokkurinn], sem voru saman um tillögur í annarri umræðu, urðu ásáttir um breytingartillögur núna. En þær þarf að kynna í þingflokkunum. Þær eru með þeim fyrirvörum,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sem á sæti í fjárlaganefnd, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segist Árni Þór vænta þess að breið samstaða náist á milli flokkanna varðandi breytingartillögurnar. Gangi allt eftir þá vonist menn til að tillögunum verði dreift á þinginu í dag eða kvöld. Þriðja og loka umræðan á Alþingi gæti þá hafist á morgun.