Frjálslyndir hafa áhyggjur af málefnum lögreglunnar

Framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins hefur sent frá sér ályktun um þróun lögreglumála á Íslandi. „Frjálslyndi flokkurinn lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í málefnum löggæslu og landhelgisgæslu á Íslandi. Frjálslyndi flokkurinn furðar sig á þeirri staðreynd að það virðist að jafnvel í svo kölluðu góðæri síðustu ára hefur löggæsla og landhelgisgæsla verið í fjársvelti.

Frjálslyndi flokkurinn átelur harðlega skilningsleysi núverandi ríkisstjórnar í þessum málaflokkum. Áframhaldandi niðurskurður sem boðaður hefur verið til löggæslumála á Íslandi af ríkisstjórnarflokkunum er algjörlega óásættanlegur.  Frjálslyndi flokkurinn hefur alltaf haft það á stefnuskrá sinni að löggæslumál skuli ætíð fá það fjármagn sem til þurfi til þess að öryggi borgarana sé tryggt. Svo hefur varla verið síðustu ár en nú keyrir um þverbak.

Skipulögð glæpastarfsemi færist í aukana á Íslandi og þessi heimur verður sífellt harðari og glæpamenn sífellt ósvífnari. Skýrasta dæmið er nú nýlega þegar ungir menn eru taldir hafa unnið skítverk fyrir skipuleg glæpasamtök og svikið út tugi milljóna af opinberu fé. Talað er um að þessir aðilar  hafi svikið um 40 – 50 milljónir út úr Íbúðalánasjóði sem er mjög nálægt þeirri upphæð sem lögreglunni er gert að skera niður í ár.

Frjálslyndi flokkurinn lýsir yfir stuðningi við störf lögreglunnar og landhelgisgæslunnar nú sem áður. Flokkurinn krefst þess að stjórnvöld tryggi þessum málaflokkum nægt fé til starfsemi sinnar. Frjálslyndi flokkurinn hvetur stjórnvöld til þess að gera nú þegar heilstæða greiningu á fjárþörf löggæslunnar og landhelgisgæslunnar í landinu og horfa til framtíðar, eitthvað sem stjórnmálamenn hafa því miður ekki gert hingað til.

Stjórnvöldum væri nær að styðja við bakið á lögreglumönnum og forystu lögreglunnar á Íslandi en ekki hrekja lögreglumenn úr starfi eins og gerðist í tíð Sjálfstæðisflokksins þegar fyrrum lögreglustjóri á Suðurnesjum var hrakinn úr embætti þrátt fyrir mjög góðan árangur í starfi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka