Fjárlaganefnd hefur afgreitt Icesave-frumvarpið út úr nefndinni með breytingartillögum. Allir nefndarmenn að Höskuldi Þórhallssyni, fulltrúa Framsókanrflokksins, undanskildum styðja breytingartillögurnar.
„Það er í meginatriðum tvö atriði sem er verið að herða á með þessum breytingartillögum. Það er tryggt enn betur að fyrirvararnir haldi gagnvart erlendum aðilum. Við styrkjum það ákvæði með mjög afdráttarlausum hætti. Hins vegar er fjallað betur um hvað gerist við lok samningstímans, þ.e. um mitt ár 2024. Gengið er formlega frá því með hvaða hætti eigi að ljúka tímabilinu. Ríkisábyrgðin gildir fram að þessum tíma en það er ákvæði um að þá taki menn upp samninga ef eftirstöðvar verða þá á láninu,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.
Frumvarpið kemur nú aftur til kasta þingsins. Gengið verður frá nefndaráliti áður en boðað verður til þingfundar en ljóst er að þingfundur verður þó ekki haldinn í dag. „Það er forseta að ákveða hvort málið verður tekið fyrir á morgun eða á fimmtudag,“ segir Guðbjartur.
Hann kveðst vona að málið sé nú komið á lokastig. Tíu af ellefu fulltrúum í fjárlaganefnd styðji tillögurnar. „Það áskilja sér allir rétt að það geti komið einhverjar breytingar við lokaafgreiðsluna en þetta er niðurstaðan.“