Játaði eftir yfirheyrslu

Borgarholtsskóli var rýmdur í hádeginu í gær vegna sprengjuhótunar.
Borgarholtsskóli var rýmdur í hádeginu í gær vegna sprengjuhótunar. mbl.is/Kristinn

Maðurinn sem handtekinn var í gær grunaður um að hafa staðið að baki sprengjuhótun í Borgarholtsskóla játaði í dag verknaðinn eftir yfirheyrslu. Maðurinn hefur verið látinn laus og fer málið í framhaldi til lögfræðideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn er um tvítugt og var handtekinn í heimahúsi í Hafnarfirði um hálfþrjúleytið í gær. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglunnar en ekki reyndist unnt að yfirheyra hann í gær vegna ástands hans.

Tilkynnt var um sprengjuhótun í Borgarholtsskóla í hádeginu í gær. Skólinn var þegar rýmdur og svæðið umhverfis hann girt af. Eftir ítarlega leit var ljóst að engin sprengja var innandyra og því var um gabb að ræða.

Hótun barst gegnum síma. Sagt var að rýma þyrfti skólann strax annars annars yrðu afleiðingarnar mjög alvarlegar. fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutningamanna og slökkviliðs var sent að skólanum. Þá var sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar kölluð til og leitaði hún að sprengju í skólanum en fann enga.

Borgarholtsskóla var lokað og þurftu nemendur að rýma skólann í skyndi og skildu eftir skó, skólatöskur og fleira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert