Mörg þingmál bíða afgreiðslu á Alþingi, og eins og flest annað ræðst það af útkomu Icesave-frumvarpsins hvort og þá hversu mörg lagafrumvörp og þingsályktunartillögur verða afgreidd áður en þinginu lýkur. Ljóst er þó að mörg mál verða látin bíða haustþingsins sem kemur saman 1. október.
Alls bíða nú 15 stjórnarfrumvörp afgreiðslu á þinginu á mismunandi stigum að frátöldu Icesave-frumvarpinu.Samkomulag mun vera um afgreiðslu nokkurra mála sem eru langt á veg komin, takist að ljúka Icvesave-málinu á næstu dögum. Þannig munu t.d. vera líkur á að frumvarpið um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins verði að lögum.
15 þingsályktunartillögur bíða afgreiðslu, þ.ám. náttúruverndaráætlun umhverfisráðherra til 2013 og 12 þingmannafrumvörp. Þeirra á meðal eru þrjú frumvörp sem stjórnarmeirihlutinn í efnahags- og skattanefnd leggur fram, m.a. um breytingar á vörugjöldum, viðbótarlántökuheimild fyrir ríkissjóð og Landsvirkjun og frumvarp um lækkun launa handhafa forsetavalds. Meðal frumvarpa sem þingmenn hafa lagt fram og eru óafgreidd á sumarþinginu er þingsályktunartillaga sjálfstæðisþingmanna um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála og frumvarp Lilju Mósesdóttur og fleiri þingmanna um samningsveð og bætta stöðu skuldara.