Óvíst um atkvæði Sjálfstæðsflokks

Icesave-málið verður væntanlega lögfest með stuðningi Samfylkingarinnar VG, og Borgarahreyfingarinnar. Óvíst er um stuðning sjálfstæðismanna og Framsóknarmenn eru á móti.

Fjárlaganefnd hefur nú afgreitt málið endanlega úr nefnd en allir flokkar nema Framsóknarflokkur styðja endanlega afgreiðslu nefndarinnar.  Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins  segir að Sjálfstæðismenn styðji þær breytingartillögur sem séu líklegar til að styrkja málið. Það muni svo bara koma í ljós við lokaafgreiðslu málsins hvernig þeir greiði atkvæði.

Einar K, segir að ríkisstjórnin hafi ekki ráðið við málið og ekki haft pólitískan meirihluta fyrir því. Núna sé búið að gerbreyta frumvarpinu og ríkisstjórnin hafi því verið gerð afturreka með sitt mál.

Fjárlaganefnd ákvað undir lokin að setja sem fyrirvara að ríkisábyrgðin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar fallist á skilyrðin. Þá gildi hún einungis til 2024.

Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG segir að Sjálfstæðismenn séu meðflutningsmenn að breytingatillögum fjárlaganefndar. Þeir hljóti því að standa með málinu í þinginu. Það væri óneitanlega sérkennilegt ef þeir gerðu það ekki.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins segist enn vera algerlega á móti frumvarpinu Fyrirvararnir séu óskýrir og loðnir. Nýi fyrirvarinn um að ríkisábyrgðin taki einungis til ársins 2024  sé einungis til þess fallin að blekkja fólk. Í næstu setningu á eftir segi að hann gildi með hliðsjón af öðrum fyrirvörum sem mæli fyrir um viðræður við Breta og Hollendinga að þessum tíma loknum. Þá standi almenningur frammi fyrir því að það sé farið að lengja lánstíma lána sem Íslendingar áttu aldrei að borga. Framsóknarmenn standi enn sem fyrr á móti slíku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert