Samtök verslunar og þjónustu segja að þegar samkeppni var innleidd á Íslandi fyrir um tíu árum síðan þegar danska fyrirtækið Aalborg Portland hóf starfsemi á Íslandi þá hafi flestir fagnað því. SVÞ hvetja til þess að ekki verði komið á einokun á Íslandi á ný á sementsmarkaði enda hafi sement á Íslandi verið það dýrasta í heiminum áður en samkeppni kom hér á.
Í tilefni af opinberri umræðu um slæma stöðu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi vilja SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu benda á eftirfarandi:
„Með EES samningnum er aðildarríkjum samningsins gert að koma í veg fyrir einokun á mörkuðum.
Fullyrða má að krafa um að fyrirtæki á samkeppnismarkaði (þó að þau séu tímabundið formlega séð í eigu ríkisbanka) beindi viðskiptum sínum til fyrirtækis í eigu samkeppnisaðila, færi gegn ríkjandi sjónarmiðum í samkeppnismálum og bryti beinlínis gegn ákvæðum samkeppnislaga. Sementsverksmiðjan á Akranesi er að mestum hluta í eigu eins stærsta steypuframleiðanda hér á landi.
Slík ráðstöfun teldist jafnframt vafalítið falla undir ríkisstyrkjaákvæði EES samningsins. Til þess að ríkisstyrkir teljist heimilir verður Eftirlitsstofnun EFTA að samþykkja slíka ráðstöfun. Telja verður í meira lagi hæpið að ríkisstyrkur í því formi sem hér um ræðir yrði heimilaður af stofnuninni," að því er segir í tilkynningu.