„Þetta var mjög góður upplýsandi fundur,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem í morgun hitti að máli Ross Beaty, forstjóra og aðaleiganda kanadíska fyrirtækisins Magma Energy. Hið sama segir Ross Beaty um fundinn en viðræðuefnið var áhugi fyrirtækisins á að auka hlut sinn í HS Orku á Suðurnesjum með kaupum á hlut Orkuveitu Reykjavíkur.
Hlutur Magma í HS Orku er um 11%, eftir kaup á eignarhlut af Geysir Green Energy fyrr í sumar, en fáist hlutur OR keyptur líka mun Magma vera ráðandi eigandi með um 43% hlut.
Fulltrúar stjórnvalda og Magma Energy munu að öllum líkindum hittast að nýju en Steingrímur hefur haft uppi efasemdir um að einkaaðilar eignist ráðandi hlut í orkufyrirtækjum við núverandi aðstæður.
„Við skiptumst á fjölda hugmynda og munum eiga frekari viðræður. Það kom fram gagnkvæmur skilningur á sjónarmiðum og ég vonast eftir að málið fái jákvæða niðurstöðu,“ segir Ross Beaty við mbl.is.