Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, segist á heimasíðu sinni hafa fengið sér léttvín með kvöldmatnum síðastliðið fimmtudagskvöld en ekki fundið til áfengisáhrifa í þingumræðu síðar um kvöldið. Eftir á að hyggja hafi það þó verið mistök að mæta í þingið eftir að hafa bragðað áfengi og biðst Sigmundur Ernir velvirðingar á því.
„Að kvöldi fimmtudagsins 20. ágúst sl. flutti ég ræðu á Alþingi um Icesave-málið. Svo sem sjá má af vefupptökum Alþingis var ræðan fyrirfram skrifuð og vel undirbúin. Fyrr um daginn hafði ég tekið þátt í golfmóti og setið kvöldverð að því loknu, þar sem ég fékk mér léttvín með matnum. Áður en kvöldverði lauk yfirgaf ég samkvæmið til þess að vera við umræðu í þinginu. Ég flutti ræðu mína seint um kvöldið og tek fúslega fram að þar var ég þreyttur og reiður vegna linnulausra frammíkalla stjórnarandstöðu, en vil leggja áherslu á að ég kenndi ekki áhrifa af því víni sem ég hafði drukkið fyrr þennan dag. Þess vegna hef ég svarað því neitandi þegar það hefur verið borið upp á mig að ég hafi verið ölvaður þetta kvöld.Eftir á að hyggja voru það engu að síður mistök af minni hálfu að mæta í þingið eftir að hafa bragðað áfengi. Á því biðst ég velvirðingar.
Að ósk eins þingmanns úr stjórnarandstöðu verður þetta mál til umfjöllunar í forsætisnefnd og mun ég bíða afgreiðslu hennar áður en ég tjái mig frekar um málið," segir Sigmundur Ernir á heimasíðu sinni.
Þingumræðan sl. fimmtudagskvöld