Aalborg Portland hefur engan áhuga á einokun á íslenskum sementsmarkaði heldur þvert á móti samkeppni íslenskum neytendum í hag, hvort sem það er frá Sementsverksmiðju á Akranesi í eigu íslenskra og norskra fyrirtækja eða öðrum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu en málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hafa verið í umræðunni að undanförnu og þá ekki síst af hálfu Verkalýðsfélags Akraness sem harðlega hefur gagnrýnt kaup á dönsku sementi.
„Árið 2000 hóf Aalborg Portland innflutning á sementi og rauf þar með áratuga einokun Sementsverksmiðju ríkisins. Viðtökur hafa verið afar góðar. Félagið hefur fjárfest fyrir hundruð milljónir króna í tækjum og aðstöðu í Helguvík.
Aalborg Portland hefur boðið íslenskum almenningi og fyrirtækjum gæðasement á góðu verði og stuðlað að heilbrigðri samkeppni. Aalborg Portland hefur engan áhuga á einokun á íslenskum sementsmarkaði heldur þvert á móti samkeppni íslenskum neytendum í hag, hvort sem það er frá Sementsverksmiðju á Akranesi í eigu íslenskra og norskra fyrirtækja eða öðrum.
Hver sem er getur flutt sement til landsins, líkt og Aalborg Portland gerir. Hjá félaginu vinna íslenskir starfsmenn, flestir á Suðurnesjum. Í kreppunni hefur félagið því miður þurft að draga saman segl og fækka starfsfólki líkt og mörg önnur fyrirtæki, " að því er segir í fréttatilkynningu frá Aalborg Portland.
Fyrir sex árum seldi ríkissjóður Sementsverksmiðjuna á Akranesi þremur einkafyrirtækjum, BM Vallá, Björgun og hinu norska Norcem, samkvæmt tilkynningu frá Aalborg Portland.
„Ríkissjóður þurfti að leggja fram um það bil hálfan milljarð króna með verksmiðjunni, auk þess að taka yfir lífeyrisskuldbindingar fyrir sömu upphæð og beita sér fyrir sérsamningi á raforku og undanþágu frá umhverfisskatti sem evrópskar verksmiðjur víðast hvar þurfa að greiða.
Þrátt fyrir ríflegt framlag til einkaaðila, skuldasöfnun Sementsverksmiðjunnar undanfarin ár, samkvæmt lánabók Kaupþings og gríðarlega sementssölu í góðærinu er upplýst að slökkva eigi á kolakyntum sementsofni á Akranesi vegna rekstrarerfiðleika. Þess er krafist að ríkið hlaupi undir bagga, mismuni hinu danska Aalborg Portland og úthýsi svo þjóðin fái aftur notið sements frá Sementsverksmiðju á Akranesi, nú í eigu einkaaðila.
Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins halda því fram að að íslensk einokun sé betri en dönsk og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur undir þau sjónarmið. Slíkur málflutningur er dapurlegur vitnisburður um ásetning þessara aðila um endurreisn íslensks atvinnulífs.
Öll samtök atvinnulífsins á Íslandi – líka Samtök iðnaðarins – hafa lagt áherslu á frjálsa samkeppni þrátt fyrir ofurvald ríkisins um þessar mundir. Þess vegna eru ummæli framkvæmdastjóra SI óskiljanleg og afar sorgleg. Aalborg Portland fer hvorki fram á ívilnanir né styrki heldur aðeins að hafðar séu í heiðri heiðarlegar leikreglur á markaði. Það mun gagnast íslenskri þjóð best," að því er segir í tilkynningu frá Aalborg Portland.