Höfuðstóll lána verður lækkaður

mbl.is/ÞÖK

Íslandsbanki hyggst grípa til þess ráðs að lækka höfuðstól húsnæðislána í erlendri mynt og hefðbundinna verðtryggðra lána og breyta þeim í óverðtryggð lán í krónum. Þetta staðfesti Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við [hjá Íslandsbanka, innsk. blm.] höfum verið að leita lausna á þeim skuldavanda sem heimili og fyrirtæki eru í. Við höfum verið að vinna að lausn, sem byggist á leiðréttingu höfuðstóls erlendra húsnæðislána og verðtryggðra húsnæðislána, í skiptum fyrir það að fara í óverðtryggðar íslenskar krónur. Nú erum við komin með efnahagsreikning bankans og sjáum hvaða svigrúm við höfum.“

Birna segir ekki ljóst enn hversu mikil leiðréttingin á höfuðstól lánanna verður en hún muni skipta sköpum fyrir marga af viðskiptavinum bankans. Birna segir ennfremur að mikilvægt sé að ná samfélagslegri sátt um aðgerðirnar og að þær verði samræmdar hjá fjármálastofnunum, a.m.k. að hluta. Forsvarsmenn Íslandsbanka hafa átt í viðræðum við skattyfirvöld og stjórnvöld um hvernig útfæra má lækkun höfuðstóls lána. Samkvæmt lögum þyrfti að greiða skatt af niðurfellingu lánsins, í hlutfalli við þá upphæð sem yrði afskrifuð.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur það komið til umræðu hjá stjórnvöldum og fjármálastofnunum að höfuðstóll húsnæðislána í erlendri mynt verði miðaður við ákveðna gengisvísitölu, til að samræma aðgerðir. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar enn og hafa bankarnir, hver í sínu horni, málin til skoðunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka