Ísland ekki eftirsóttur markaður

Sementsverksmiðjan Akranesi
Sementsverksmiðjan Akranesi

„Ekki fara margir erlendir innflutningsaðilar að keppa um þennan litla markað,“ segir Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi upp á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun, en fram hefur komið að erfiðleikar eru þar í rekstrinum. Jón bendir sérstaklega á að á Íslandi er ekki stór markaður fyrir sement og ef verksmiðjunni á Akranesi verður lokað sé hætt við að eingöngu verði flutt inn sement frá Danmörku.

„Við vitum öll að það er samdráttur í bygginga- og steypuframkvæmdum,“ segir Jón. „Það er fyrirsjáanlegt að að óbreyttu verður að skera mikið niður vinnu þarna og jafnvel loka henni um tíma,“ segir Jón og bendir á að slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar. „Það er oft svo að ef fyrirtækjum sem byggja á sérhæfðum starfskröftum er lokað um tíma tapast þekkingin og erfitt getur reynst að koma starfseminni aftur í gang.“

Hann telur að huga eigi að því að kaupa íslenskt sement til opinberra framkvæmda. „Við erum líka í þeirri stöðu að við búum við neyðarlög á sviði fjármála- og viðskiptalífs í landinu. Við búum við lög um gjaldeyrishöft og það er ljóst að gjaldeyrir er mjög af skornum skammti. Þess vegna ber okkur að horfa til allra þeirra starfa sem geta verið til verðmætasköpunar í landinu og spara innflutning.“

Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra var falið að kanna stöðu málsins og leggja fram minnisblað í ríkisstjórninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert