Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, tekur undir gagnrýni stjórnarformanns Exista, Lýðs Guðmundssonar, á nafnlausar árásir í netheimum. En Lýður gerði bloggara að umtalsefni sínu í ræðu á aðalfundi Exista í morgun. Auk þess sem hann kom inn á sama mál í viðtali við Kastljós í kvöld.
Á fundinum í morgun sagðist Lýður ekki ætla að elta ólar við það samfélag hugleysingja sem stór hluti bloggheima virðist orðinn, að hans sögn.
„Sóðakjaftur þeirra sem þar skýla sér undir dulnefnum á samt sinn þátt í því andrúmslofti sem
daglega er kynt undir og því miður leika nokkrir oddvitar umræðunnar í netheimum þar talsvert
hlutverk líka. Ég virði tjáningarfrelsi í landinu en ég fyrirlít margt það sem nafnlausir
hugleysingjar senda daglega frá sér með bloggi sínu og orðbragði sem aldrei ætti að sjást eða
heyrast," að sögn Lýðs Guðmundssonar.
Segir Björn á vef sínum að gagnrýni Lýðs sé bæði tímabær og réttmæt. „Þessar nafnlausu svívirðingar eru sama eðlis og árásir skemmdarvarga á eignir manna í skjóli myrkurs. Þeirra, sem skemma eignir er leitað, hinir, sem skemma mannorð manna, ærast séu þeir gagnrýndir," skrifar Björn á vef sinn í kvöld.