Upplýsi um seljanda stofnfjárbréfa

Hæstirétt­ur hef­ur fall­ist á kröfu manns, sem keypti stofn­fjár­bréf í SPRON í júlí árið 2007 fyr­ir 55,5 millj­ón­ir króna, um að formaður skila­nefnd­ar SPRON upp­lýsi fyr­ir dómi hver var selj­andi bréf­anna.

Stjórn SPRON samþykkti framsal á um­rædd­um stofn­fjár­hlut­um til Davíðs Heiðars Hans­son­ar en um var að ræða 0,1% út­gef­inna stofn­fjár­bréfa.   Þann 7. ág­úst 2007 voru viðskipti með stofn­fjár­bréf SPRON stöðvuð. Í kjöl­farið var spari­sjóðnum breytt í hluta­fé­lag og það skráð op­in­berri skrán­ingu í kaup­höll.

Fjár­mála­eft­ir­litið ákvað í mars  að víkja stjórn SPRON frá störf­um og setja í henn­ar stað skila­nefnd yfir fé­lagið. Davíð Heiðar skrifaði skila­nefnd­inni bréf þar sem hann lýsti viðskipt­um sín­um og sagðist  hafa ríka ástæðu til að ætla að selj­andi þeirra hafi verið stjórn­ar­maður í spari­sjóðnum.  Fram hafi komið op­in­ber­lega að stjórn­ar­menn í spari­sjóðnum hafi selt veru­leg­an hluta stofn­fjár­bréfa sinna dag­ana eft­ir að ákveðið var á stjórn­ar­fundi SPRON að breyta sjóðum í hluta­fé­lag. Í tengsl­um við þá ákvörðun hafi stjórn­ar­menn haft und­ir hönd­um upp­lýs­ing­ar um verðmæti spari­sjóðsins, sem aðrir hafi ekki haft aðgang að.

Sagðist Davíð Heiðar hafa í hyggju að leita rétt­ar síns vegna þess tjóns sem hann varð fyr­ir við kaup um­ræddra stofn­fjár­bréfa en til þess skorti hann upp­lýs­ing­ar um hver hafi verið selj­andi bréf­anna.

Skila­nefnd­in til­kynnti Davíð Heiðari í apríl að hún yrði ekki við þess­ari ósk nema staðfest yrði að henni bæri skylda til þess. Nú hef­ur Hæstirétt­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu, að upp­lýs­ing­ar til kaup­anda stofn­fjár­bréfa um það hver selj­andi þeirra hafi verið, geti ekki varðað viðskipta- eða einka­mál­efni selj­and­ans þannig að stjórn­ar­mönn­um eða starfs­mönn­um spari­sjóðs sé óheim­ilt að veita þær vegna laga­ákvæða um banka­leynd.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert