Hæstiréttur hefur fallist á kröfu manns, sem keypti stofnfjárbréf í SPRON í júlí árið 2007 fyrir 55,5 milljónir króna, um að formaður skilanefndar SPRON upplýsi fyrir dómi hver var seljandi bréfanna.
Stjórn SPRON samþykkti framsal á umræddum stofnfjárhlutum til Davíðs Heiðars Hanssonar en um var að ræða 0,1% útgefinna stofnfjárbréfa. Þann 7. ágúst 2007 voru viðskipti með stofnfjárbréf SPRON stöðvuð. Í kjölfarið var sparisjóðnum breytt í hlutafélag og það skráð opinberri skráningu í kauphöll.
Verðmæti stofnfjárbréfanna og síðar hlutabréfanna hríðlækkaði frá því Davíð Heiðar keypti bréfin. Nokkrum mánuðum eftir kaup stofnfjárbréfanna seldi hann þau með miklu tapi.Fjármálaeftirlitið ákvað í mars að víkja stjórn SPRON frá störfum og setja í hennar stað skilanefnd yfir félagið. Davíð Heiðar skrifaði skilanefndinni bréf þar sem hann lýsti viðskiptum sínum og sagðist hafa ríka ástæðu til að ætla að seljandi þeirra hafi verið stjórnarmaður í sparisjóðnum. Fram hafi komið opinberlega að stjórnarmenn í sparisjóðnum hafi selt verulegan hluta stofnfjárbréfa sinna dagana eftir að ákveðið var á stjórnarfundi SPRON að breyta sjóðum í hlutafélag. Í tengslum við þá ákvörðun hafi stjórnarmenn haft undir höndum upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins, sem aðrir hafi ekki haft aðgang að.
Sagðist Davíð Heiðar hafa í hyggju að leita réttar síns vegna þess tjóns sem hann varð fyrir við kaup umræddra stofnfjárbréfa en til þess skorti hann upplýsingar um hver hafi verið seljandi bréfanna.
Skilanefndin tilkynnti Davíð Heiðari í apríl að hún yrði ekki við þessari ósk nema staðfest yrði að henni bæri skylda til þess. Nú hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu, að upplýsingar til kaupanda stofnfjárbréfa um það hver seljandi þeirra hafi verið, geti ekki varðað viðskipta- eða einkamálefni seljandans þannig að stjórnarmönnum eða starfsmönnum sparisjóðs sé óheimilt að veita þær vegna lagaákvæða um bankaleynd.