Samþykkt var að skora á ríkisstjórn Íslands og sveitarfélög að koma í veg fyrir kaup Magma Energy á hlutum í HS orku á um 100 manna samstöðufundi sem haldinn var í Grindavík í gærkvöldi.
Í yfirlýsingu fundarmanna segir að heitið sé „á ríkisstjórn Íslands að standa vörð um sameiginlegar auðlindir landsmanna með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi“.
Framsal auðlindarinnar í jafnlangan tíma og gert er ráð fyrir í tilboði Magma beri að líta á sem varanlegt og við þær aðstæður sem nú séu uppi í þjóðfélaginu sé brýnt að lausafjárvandi samfélagsins sé ekki leystur með bráðræðislegum gjörningum þar sem miklum hagsmunum sé fórnað.