„Sá ágreiningur sem færi fyrir gerðardóm væri fyrst og fremst lagalegs eðlis,“ segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Hann hefur, að höfðu samráði við Hagsmunasamtök heimilanna, Félag fasteignasala, Búseta og Húseigendafélagið o.fl. hagsmunaaðila, sent fyrirtækjum og lífeyrissjóðum sem veitt hafa neytendalán, svo og félags- og tryggingamálaráðherra vegna Íbúðalánasjóðs, tilmæli með ósk um viðræður við þá um gerðarsamning í því skyni að leysa með skjótum hætti úr réttarágreiningi um forsendubrest og öðrum lagalegum álitamálum um gengis- og verðtryggð neytendalán. Gísli segir gerðardómsleiðina ekki bara færa heldur líka hentuga.
„Margir hafa nefnt forsendubrest, til dæmis,“ segir Gísli. „Það eru margvísleg lagarök, þannig að þetta er ekki eins og stjórnmálamenn virðast hafa haldið að verið sé að veita einhvern afslátt eða lækkun. Þetta er þjóðfélagslega hagkvæm leið til að leysa úr mjög brýnum ágreiningi. Ein röksemdin er meira að segja að það hafi verið bannað að veita gengisbundin lán,“ segir Gísli.
Hann kveðst hafa, sl. vor, beðið stjórnvöld um að leysa úr málinu. „Það mistókst og nú hefur biðin eftir lausn varað í fjóra mánuði og þá er að biðja bankana, kröfuhafana, lífeyrissjóðina, að gangast inn á það sama eftir gildandi lögum. Ég var að biðja um sérlög um sérlausn en þó eftir gildandi efnisreglum.
Nú er ég hins vegar búinn að gefast upp á að bíða eftir stjórnvöldum, má segja, og þá er að nýta gildandi lög um gerðarsamninga, sem gjarnan eru notaðir í viðskiptalífinu, til dæmis ef menn vilja leysa mál með skilvirkum hætti,“ segir Gísli og bendir á að í gerðardómi sé ekki áfrýjunarstig og þess vegna taki gerðardómsleiðin alltaf mun styttri tíma.