Borið hefur á því að fólk sem ferðast til útlanda leggi bifreiðum í almenningsstæði á meðan að á ferðalaginu stendur til að sleppa við að borga geymslugjald við flugstöðina. Eigendur bílastæðanna eru ekki par hrifnir af uppátækinu enda eru bílastæðin ekki ætluð sem langtímastæði.
Víkurfréttir skýra frá því að eigandi þessarar Land Rover bifreiðar sem sést á myndinni hafi lagt henni fyrir utan pósthúsið í Keflavík, svona rétt á meðan hann „skaust til Alicante” eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við stöðvarstjóra pósthússins, sem hafði símasamband við manninn.
Þá hafði bílinn verið á stæðinu í einn og hálfan sólarhring en eigandinn kvaðst ætla að vera í viku í þessum skottúr á sólarströnd. Stöðvarstjórinn mun ætla að láta draga bílinn í burtu.
Snemma í sumar greindi fréttavefur Víkurfrétta frá bíl sem hafði verið lagt í bílastæði
heimahúss við Heiðarenda, við litla hrifningu íbúanna. Umráðamenn
bílsins höfðu lagt þar einn morguninn, fært farangurinn yfir í annan
bíl og látið skutla sér upp í flugstöð.