Ísland fær fyrstu skammta bóluefnisins gegn H1N1 í september. Landið greiddi fyrir forgangsaðgang líkt og margar aðrar þjóðir. Bretar og Frakkar hafa þegar fengið fyrstu skammta en ekki er búið að samþykkja efnið af lyfjaeftirliti landanna.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að bóluefnið sé væntanlegt hingað til lands í september. Ísland hefði greitt fyrir forgang að efninu líkt og margar aðrar þjóðir og fengju þær langflestar efnið á svipuðum tíma.
Íslenska ríkið gerði samning við GlaxoSmithKline á sínum tíma, gegnum útboð.„Framleiðslan er hafin í Belgíu en þetta gengur hægt fyrir sig,“ segir Haraldur.
Aðspurður um það hvernig standi á því að Frakkar og Bretar séu búnir að fá fyrstu skammta sagði hann að verið gæti að löndin hefðu fengið þær birgðir sem búið væri að framleiða.
Bretland og Frakkland gerðu samninga við fleiri en einn framleiðanda bóluefnisins.
„Það getur verið að sum lönd hafi gert samninga við fleiri en einn en að okkar mati getur valdið ákveðnum erfiðleikum að hafa efni frá mörgum aðilum. Glaxo er mjög öruggt fyrirtæki og við erum ánægðir með að þeir sjái um okkar efni,“ sagði hann.